Ágætu Keilisfélagar

Nú er meistaramótinu lokið og vonandi hafa flestir átt ánægjulega daga þrátt fyrir misjafnt veður og misjafnt skor.

Þótt Keilir haldi reglulega viðamikil golfmót bestu kylfinga landsins líta flestir svo á að meistaramótið sé hápunktur sumarsins. Starfsmenn klúbbsins leggja enda metnað sinn í að völlurinn skarti sínu fegursta í meistaramótinu og að framkvæmd mótsins megi verða með sem bestu móti.

Öllum verða á mistök,  jafnt keppendum, dómurum, vallarstarfsmönnum og mótsstjórn. Að sjálfsögðu reynum við að læra af mistökunum og koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Sem lið í því að fræða Keilisfélaga um golfreglurnar viljum við því benda á nokkur þeirra atriða sem komu til kasta okkar dómaranna í meistaramótinu í ár:

 

  1. Í meistaramótinu var talin þörf á að leyfa færslur á snöggslegnu svæði á leið. Með því orðalagi er átt við öll svæði á vellinum sem eru slegin jafn neðarlega og brautirnar, að flötunum undanskildum og teignum á holunni sem við erum að leika. Á Hvaleyrarvelli er því átt við brautirnar sjálfar, svunturnar umhverfis flatir og teiga á öðrum holum en þeirri sem við erum að leika. Önnur svæði eru ekki snöggslegin, þ.á.m. innanverðir graskantar í glompum.
  2. Þegar færslur eru leyfðar á snöggslegnu svæði segir staðarreglan að einungis megi færa boltann í eitt skipti áður en hann er sleginn. Eftir að við erum búin að leggja boltann niður megum við því almennt ekki lyfta honum aftur áður en við sláum hann.
  3. Rigningin einkenndi meistaramótið í ár og því fylgir að pollar vilja myndast á vellinum. Golfreglurnar leyfa kylfingum vítalausa lausn frá aðkomuvatni og gildir það hvar sem er á vellinum, að vatnstorfærum auðvitað undanskildum. Reglan er sú að við eigum rétt á þessari vítalausu lausn ef aðkomuvatn truflar legu boltans, sveiflusvið eða stöðu okkar, þ.e. ef við þurfum að standa í aðkomuvatni. Í fáum orðum felst lausnin í því að finna nálægasta stað (ekki nær holunni) þar sem ekki er  truflun af aðkomvatninu og láta boltann falla innan kylfulengdar frá þeim stað. Ef  aðkomuvatnið er á braut getur nálægasti staðurinn verið í karga og á sama hátt getur nálægasti staðurinn verið á braut þótt aðkomuvatnið sé í karga.
  4. Ein undantekning er á reglunni með lausn frá aðkomuvatni. Við fáum ekki lausn ef eitthvað annað en aðkomuvatnið kemur í veg fyrir að hægt sé að slá boltann. Ef við sjáum t.d. boltann okkar ofan í þröngri sprungu í hrauninu fáum við ekki lausn frá aðkomuvatni þótt boltinn liggi í polli ofan í sprungunni.
  5. Fallreitina á 2. og 3. holu má bara nota ef við dæmum bolta ósláanlegan. Til að gera það þurfum við að finna boltann innan vallar og þekkja hann sem okkar bolta. Það er því ekki nóg að vita að boltinn hafi lent í tiltekinni sprungu eftir teighöggið. Ef sjáum boltann ekki í sprungunni og getum ekki þekkt hann sem okkar bolta verðum við að fara aftur á teig og slá þriðja högg þaðan.
  6. Fjarlægðarhælarnir (100, 150, 200 m.) eru óhreyfanlegar hindranir samkvæmt staðarreglum á Hvaleyrarvelli. Það þýðir að við megum ekki hreyfa við hælunum til að auðvelda okkur högg. Ef hælarnir trufla legu boltans, stöðu okkar eða sveiflusvið megum við hinsvegar fá vítalausa lausn frá þeim. Það gerum við með því að finna næsta stað fyrir lausn og láta boltann falla innan kylfulengdar frá þeim stað, ekki nær holunni.
  7. Sömu aðferð notum við ef við viljum fá vítalausa lausn frá stígum trufla legu boltans, stöðu okkar eða sveiflusvið. Við finnum næsta stað fyrir lausn og látum boltann falla innan kylfulengdar frá þeim stað, ekki nær holunni. Í Hrauninu eru aðstæður þó oft þannig að það borgar sig ekki að taka slíka lausn því við getum verið í verri málum eftir að hafa látið boltann falla innan kylfulengdar frá næsta stað fyrir lausn. Því er alltaf best að athuga fyrst hvort við raunverulega viljum taka slíka lausn áður en við hreyfum við boltanum. Ef við lyftum boltanum og hættum svo við að taka lausn fáum við nefnilega eitt högg í víti.
  8. Ef við tökum víti úr tjörninni við 9. holu getum við tekið fjarlægðarvíti eða látið boltann falla beint á beina línu frá holunni í gegnum staðinn þar sem boltinn fór síðast inn fyrir gulu línuna sem afmarkar vatnstorfæruna. Við megum ekki taka víti með því að láta boltann falla tvær kylfulengdir til hliðar.
  9. Tjörnin á 8. holu er hliðarvatnstorfæra (rauðmerkt). Þar megum við taka víti með því að láta boltann falla innan tveggja kylfulengda frá staðnum þar sem boltinn fór síðast inn fyrir rauðu línuna sem afmarkar hliðarvatnstorfæruna. Auk þess megum við taka víti með því að láta boltann falla beint á beina línu frá holunni í gegnum staðinn þar sem boltinn fór síðast inn fyrir rauðu línuna (á sama hátt og á 9. holu).
  10. Ef boltinn okkar stöðvast upp við einhvern hreyfanlegan manngerðan hlut, s.s. hrífu við glompu, gildir regla um hreyfanlegar hindranir. Þá fjarlægjum við einfaldlega hindrunina og ef boltinn hreyfist við það leggjum við hann aftur á sinn stað, vítalaust.

 

Að lokum viljum við hvetja kylfinga til að nýta sér þjónustu dómaranna ef þeir eru ekki alveg vissir um hvernig þeir eigi að framfylgja golfreglunum úti á velli. Því miður gerist það of oft að keppendur „leysa málin upp á eigin spýtur“ þótt þeir séu í vafa um hvað eigi að gera. Það leiðir stundum til þess að vísa þarf keppendum úr móti og gerðist það í meistaramótinu í ár eins og mörg síðustu ár. Það er afskaplega dapurlegt að þurfa að vísa keppendum úr móti vegna þess eins að þeir ráðfærðu sig ekki við dómara í tíma.

Símanúmer dómaranna kemur alltaf fram á staðarreglublöðunum sem dreift er við ræsingu. Í Keili er það raunar þannig að sama símanúmer er alltaf hjá dómurum sem eru á vakt og því er margt vitlausara en að Keilisfélagar setji þetta númer í minnið á símanum sínum, númerið er 857 4954.

Með golfkveðju,
Dómarar Keilis