Nú er hafið merkilegt sumar í sögu golfklúbbsins Keilis.  Ekki nóg með það að stórum áfanga hefur verið náð með 50 ára afmæli klúbbsins, heldur verða einnig töluverðar breytingar á vellinum.  Þrjár nýjar holur verða teknar í notkun um mitt sumar, á sama tíma og við kveðjum þrjár.

Til þess að breytingarnar gangi sem hraðast í gegn, höfum við þurft að breyta slætti á 12.-14. holu.  Þar sem að 13. holan mun leggjast af, þá myndast aukið pláss á milli 12. og 18. holu.  Brautin á 12. verðu því færð nær 13. í létta hundslöpp frá vinstri til hægri.  Brautarglompunni á 12. verður lokað, en glompan á 13. (sem núna verður í brautarjaðri þeirra 12.) mun halda sér, þessa breytingu má sjá vel á myndinni sem fylgir fréttinni.  Hægri kantur 12. brautar verður að slegnum karga, en óslegni karginn mun haldast óbreyttur (færist þó í raun lengra frá brautinni).  Boltar ættu hinsvegar að stoppa í hallanum, frekar en að rúlla í óslegna kargann við þessar breytingar… við getum að vísu ekki lofað neinu fyrir kraft-sneiðarana (e. power fade).

Þar sem að 13. og 14. brautin verða að kargasvæðum í framtíðinni, munu þessar brautir verða slegnar í for-karga hæð (semirough) í sumar, eða fram að mánaðarmótum júní/júlí.  Þegar farið verður inn á nýju brautirnar þurfa þessi svæði að vaxa hratt upp svo aðvöllurinn spilist rétt í Landsmótinu í höggleik, sem fer fram seinni hluta júlí mánaðar.  Þar sem að grasvöxtur á 13. og 14. er frekar hægur, þá höfum við tekið þessa ákvörðun.  Við viljum ekki hraða grassprettunni með áburðargjöf, þar sem að það getur haft neikvæð langtímaáhrif á grasasamsetningu á svæðinu.

Við vonum að kylfingar sýni þessu skilning á þessum spennandi tímum sem framundan eru.  Áður en við vitum af, þá verðum viðleikandi okkar magnaðasta golf á nýjum glæsilegum golfholum með glaðbeitt bros að vopni.