Gísla Sveinbergssyni var fagnað við heimkomu í golfskálanum á Hvaleyri á  föstudag og tók þar á móti blómvöndum frá GSÍ, Golfklúbbnum Keili og Bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Árangur Gísla á þessu ári er með ólíkindum, hann er orðinn efstur íslenskra kylfinga á Heimslista áhugamanna eftir einungis eitt ár á Eimskipsmótaröðinni. Næsta verkefni Gísla er að keppa með sigursveit Keilis á evrópumóti klúbbliða sem fram fer í Bulgaríu.

gisli_mottaka_1

Eftirfarandi er tekið af kylfingi.is:

Gísli lék flott golf fyrstu 18 holurnar og náði forystu í mótinu á -2 og leiddi með höggi þegar annar hringur hófst. Annar var besti kylfingur Skota, heimamaðurinn Ewen Ferguson, höggi á eftir Gísla og fleiri komu síðan skammt undan. Það mátti því gera ráð fyrir spennandi keppni. Eftir fimm holur á öðrum hring var leik frestað vegna þoku en þá var Keiliskappinn búinn að fá tvo fugla til viðbótar og auka við forystuna. Á þriðja keppnisdegi þurfti hann að vakna kl. 5 um morguninn en þegar hefja átti leik var of mikil þoka. Nokkrum tímum síðar var hægt að hefja leik og Íslendingurinn hélt áfram að leika frábært golf og fékk þrjá fugla á næstu þremur brautum. Þá var forystan komin í sex högg og ljóst að mikið þurfti að ganga á til að Gísli tapaði þeirri forystu.

„Þegar ég var kominn fimm undir par eftir tíu holur var ég ekki lengur að hugsa um sigurinn heldur vallarmetið sem Rory McIlroy á og er 7 undir. Fór aðeins fram úr mér því ég fékk tvo skolla í andlitið en ég jafnaði mig á því og kláraði dæmið. Það var léttir að gera það því það gekk talsvert á í þessu þokurugli en ég lét það ekkert á mig fá og náði að leika gott golf.“