Kæru félagsmenn ég er sannfærður um það að nú fari í hönd frábært golfsumar. Ég veit það fyrir víst að það verður nákvæmlega jafn gott og við gerum það sjálf alveg eins og hvert högg sem við sláum.

Stórt atriði sem mikil áhrif hefur á gæði golfleiks er margumræddur leikhraði. Við höfum sett sem viðmið að leika völl okkar á liðlega 4 tímum þegar völlur er fullbókaður.

Mig langar að benda á tvö atriði sem ég tel geta skipt sköpum við það að halda leikhraða góðum svo allir geti notið leiksins til fulls.

Að mínu viti er versti óvinur okkar, minnsta verkfærið sem við notum á vellinum en það er flatarmerkið. Það er kannski ekki merkið sjálft heldur hvernig við notum það. Ég skora á ykkur að prófa að merkja ekki bolta ykkar nema þegar þið eruð beðin um það. Jafnframt skora ég á ykkur að undirbúa ykkar pútt meðan að aðrir eru að leika, þannig að þið séuð tilbúin þegar að ykkur kemur.

Alltof oft sér maður fjóra leikmenn á flöt, 3 með bolta í hendi og einn að leika. Þó svo að enginn sé í leiklínu hins.

Golfreglurnar segja skírt til um merkingu bolta á flöt. Það er ekki skylda að merkja bolta nema að annar leikmaður biðji um það.

Síðan vil ég hvetja ykkur til að kynna ykkur hugtakið „Ready golf“. Það er að mínu viti skemmtilegasta leikform sem í boði er til að nálgast golf leikinn. Hver kannast ekki við það að vera í ráshóp, kannski eins og oft er mikil keppni í gangi. Strax á þriðja teig hefur ráshópurinn fyrir aftan dregið hópinn uppi og eftir 6-7 holur er ræsirinn farinn að fylgjast með. Niðurstaðan oft á tíðum óþarfa hlaup og minni ánægja en vera þyrfti. Mín upplifun er að með því að nálgast golfleikinn með hugarfari „Ready golf“ losni leikmenn við það að lenda í þessu og spari ráshópnum allt að 30 mínútur á hring.

Ég læt fylgja með hér ábendingar á greinar um þetta.

http://dandefarmsgolf.com/how-to-play-ready-golf.html

http://www.keyportgolf.com/rules%20of%20ready%20golf.htm

–        Göngum ætíð rösklega.

–        Verum alltaf tilbúin að leika þegar kemur að okkur, við getum undirbúið okkur að hluta meðan aðrir gera.

Ég vil jafnframt minna fólk á nýtt skráningarkerfi sem er frábær nýjung sem mun hjálpa okkur til að auka nýtingu á velli okkar.

Sjáumst brosandi á vellinum í sumar.

 

Arnar Atlason