Að áeggjan góðra félaga í Keili hef ég ákveðið að bjóða mig fram sem fulltrúa í stjórn golfklúbbsins.

Ég hef notið þeirrar frábæru aðstöðu sem klúbburinn minn hefur byggt upp á undanförnum árum og ef ég get unnið mínu félagi vel, þá mun ég ekki liggja á liði mínu.

Ég hef verið kennari bæði hérlendis og í Svíþjóð, sinnt samfélagsþjónustu sem bæjarfulltrúi í tæp átta ár og tók svo aftur upp þráðinn við kennslu eftir tveggja og hálfs árs búsetu í Bítlaborginni. Eiginmaður minn er Emil Lárus Sigurðsson, eigum við þrjú börn og nýlega bættist fyrsta barnabarnið í hópinn.

Að mörgu er að hyggja í fjölmennum klúbbi með svo breiða aldurssamsetningu félaga sem raun ber vitni. Ég mun leggja áherslu á áframhaldandi jákvæða þróun á starfi og umgjörð í samvinnu við ykkur ágætu félagar og starfsfólk Keilis. Auk þess að vinna að góðum og uppbyggilegum samskiptum við okkar ágæta bæjarfélag.

Það eru spennandi tímar framundan og ég til þjónustu reiðubúin, ef eftir því er óskað.

Áfram Keilir.
Ellý Erlingsdóttir.