Ungviðið

• Mikilvægast af öllu er að fyrstu kynni af golfíþróttinni séu jákvæð og að börnum og unglingum líði vel og þau finni að þau séu velkomin til okkar.

• Að gefa öllum jöfn tækifæri til að stunda golf óháð því hvort einstaklingurinn vilji keppa eða ekki, verða afreksmaður eða ekki. Öll börn og unglingar sem vilja stunda íþróttir til þess að svala félagsþörf sinni fái að stunda golf við sitt hæfi.

• Skipuleg og markviss þjálfun geti skapað börnum og unglingum færi á því að verða kylfingar alla ævi.

• Golfiðkun skal vera þroskandi líkamlega, félagslega og sálrænt. Með því móti skapast aðstæður fyrir mun fleiri börn og unglinga að njóta sín og æfa golf hjá Keili.

• Fjölga félögum í barna- og ungmennastarfinu með kynningum á golfíþróttinni í leikskólum, grunn- og framhaldsskólum í Hafnarfirði.

Sl. ár hefur hópur yngri barna frá leikskólanum á Vesturkoti mætt á golfæfingar og hafa sum þeirra skilað sér áfram inn í starfið. Einnig hafa nemendur frá skólum í Hafnarfirði mætt með umsjónar- eða íþróttakennurum á kynningar á golfíþróttinni með þjálfurum Keilis.

Golfleikjaskóli Keilis

Golfleikjaskóli Keilis starfaði í sumar. Skólinn er í viku eða frá mánudegi til föstudags frá kl. 9:00 til 11:30 eða frá kl. 13:00 til 15:30.

Skólinn er fyrir allar stelpur og stráka á aldrinum 5 – 8 ára og 9 – 12 ára.

Skólinn í ár gekk mjög vel og voru skráningar 342 talsins. Leiðbeinendur voru ungir og efnilegir kylfingar Keilis á aldrinum 15-21 ára í bland við eldri afrekskylfinga. Skólastjóri var Karl Ómar íþróttasjóri Keilis sem sá um allt skipulag og æfingar.

Markmið skólans er að fyrstu kynni af golfi eru jákvæð og það er gaman að leika golf. Farið er í helstu þætti golfleiksins, allt frá púttum til upphafshögga og leiknar eru nokkrar golfholur á golfvelli.

Öll kennsla er í formi þrauta og golfleikja og er lögð áhersla á að kynna helstu golfsiði og golfreglur fyrir krökkunum.

Skólinn á að vera stökkpallur fyrir þau sem hafa áhuga á því að byrja að æfa golf og taka þátt í barnastarfi Keilis.