Golfvellirnir

Það var greinilegt frá fyrstu vordögum að veðurguðirnir ætluðu að bæta upp fyrir sumarið 2018. Auk þess að veturinn fór vel með völlinn var veðrið í vor mjög gott og byrjaði því golfsumarið með látum. Hinn árlegi hreinsunardagur fór fram 1. maí þar sem vel var mætt og mikið unnið. Ásamt föstum vorverkefnum var áhersla lögð á tyrfingar á Sveinskotsvelli, söfnunar á slegnu grasi í karga og lagning gúmmímotta milli 13. flatar og 14. teigs.

Maímánuður var nokkuð hlýr með meðalhita upp á 7,7 stig, sem er tæplega 1 stigi yfir meðallagi síðustu 10 ára. Völlurinn komst því fljótt í gott stand og var þétt setinn alla daga. Lítið var um björgunaraðgerðir og ánægjulegt var að sjá hversu vel brautirnar komu undan vetri og sú vinna sem fór í að endurheimta grasfleti í brautum sumarið áður hafði haldist óbreytt í gegn um veturinn.

Júnímánuður einkenndist af sól og þurrki en óvenju lítil úrkoma mældist í júní. Meðalhiti í júní mældist 10,4 stig, sem er hálfu stigi undir meðallagi síðustu 10 ára. Veður var frábært til golfiðkunar og völlurinn nýttur til fulls. Þurrkurinn hafði ekki mikil áhrif á gæði vallarins en Hvaleyrarvöllur er svo vel búinn að hafa sjálfvirkt vökvunarkerfi í flötum, teigum og flestum brautum. Álagið á kerfið var þó mikið og kom fyrir að vökva þurfti brautir yfir dagtímann en hlaut enginn skaða af. Það voru því aðallega svæði utan brauta, auk nokkurra kraga sem þornuðu upp en það voru þó einingis skammtímavandamál. Í júní var einnig hafist handa við byggingu nýrrar golfholu á Hvaleyrinni. En nánar er farið í það í framkvæmdakaflanum hér annarsstaðar í skýrslunni.

Veður hélt áfram að vera gott í Júlímánuði, sem var sá hlýjasti frá upphafi mælinga í Reykjavík, eða 13 stiga meðalhiti, sem er 1,4 stigi yfir meðallagi síðustu 10 ára. Eins og oft áður var mótahald áberandi í Júlí en nokkur vel heppnuð mót fóru fram á vellinum. Helst bera að nefna meistaramót Keilis og KPMG Hvaleyrarbikarinn. Meistaramótið fór vel fram og sennilega aldrei verið boðið upp á betra veður. Þrátt fyrir mikinn ágang á völlinn tókst vel að halda gæðunum í hámarki og mikil vinna og samheldni í hópi starfsmanna augljóslega skilað sér.

Haustmánuðir voru góðir til golfiðkunar og héldust gæði valla framar vonum út tímabilið. Lokað var fyrir umferð á Hvaleyrarvöll í lok október.

Bæði Hvaleyrarvöllur og Sveinskotsvöllur komu mjög vel undan vetri og lítið um björgunaraðgerðir sem fara þurfti í. Viðhald vallanna var því að miklu leiti rútínukennt og unnið að því að halda gæðum spilaflatanna í stað þess að vinna upp svæði sem skemmst höfðu um veturinn.

Stærsta þraut sumarsins var sennilega að berjast gegn þurrki, en lítið rigndi og því nauðsynlegt að passa upp á rakastig helstu spilaflatanna. Vökvunarkerfið okkar er því miður ekki í stakk búið að vökva öll svæði á einni nóttu og þurfti því að vökva brautir á daginn nokkra daga. Jákvætt var þó að töluverð yfirhalning varð á kerfinu okkar, þar sem nauðsynlegt var að allt gengi sem best fyrir sig.

Líkt og síðastliðin ár var unnið eftir MLSN kenningum Stowel og Woods og áburði haldið í lágmarki. Áburður sem fór á flatir var nánast eingöngu köfnunarefni í formi ammóníumsúlfats. Heildar áburður á flatirnar þetta sumarið var 81 kg/ha af köfnunarefni, 8 kg/ha af fosfór, 12 kg/ha kalíum og 3 kg/ha járn.

Köfnunarefnisþörfin í sumar var reiknuð eftir formúlum um vaxtarhraða grassins og hversu mikið af því hafði verið fjarlægt frá síðustu áburðargjöf. Áborið köfnunarefnismagn var um 19% meira en sumarið á undan enda vaxtarskilyrði öllu hagstæðari.

Önnur efni sem fóru á flatirnar voru vaxtarstjórnunarefnið Primo maxx og vatnsmiðlunarefnið Primer Select. Yfir tímabilið fóru niður 1,4 l/ha af Primo maxx og 50 l/ha af Primer Selcect.

Vel tókst að halda jöfnum hraða á flötunum í sumar og var hraðinn mestan hluta tímabilsins um 9 á stimp. Flatir voru slegnar í 4,3 mm 3x-4x í viku og valtaðar þá daga sem ekki var slegið.

Seinni hluta hausts fór að kræla á sveppasýkingum í flötum og brugðist var við því með úðun sveppalyfja. Þessi efni munu einnig hjálpa til við að halda sýkingum sem herjað geta á grasið í vetur í lágmarki. Auk sveppalyfja voru flatir sandaðar og gataðar með 12mm teinum í haust. Haustsöndunin var þá sú fimmta á tímabilinu. Þykku lagi var dreyft í vor, tvær léttari sandanir í sumar og svo tvær sandanir í haust.

Brautir voru almennt ágætar í sumar og mjög ánægjulegt að sjá árangur þeirra framkvæmda sem farið var í síðasta haust, þar sem skorið var í brautirnar og sáð og sandað á eftir. Einnig virkuðu þau niðuföll sem boruð voru um veturinn mjög vel í þau fáu skipti sem á þau reyndi. Haldið verður áfram með skurð í brautir á næsta ári, en tíminn og vinnan sem fóru í nýframkvæmdir komu í veg fyrir að hægt væri að halda áfram þetta árið. Einungis var borið á brautir í hrauninu ásamt nýju brautunum 13. og 14. Á þær var borinn áburður í föstu formi og magnið um 40 kg/ha af köfnunarefni. Brautir voru slegnar 3x í viku yfir tímabilið og sláttuhæð í 9mm.

Sumarið 2019 var að mörgu leyti merkilegt. Veður var gott og golfarar fengu svo sannarlega tækifæri til þess að stunda íþróttina af kappi. Völlunum okkar leið vel og gæðin héldust nokkuð jöfn yfir langt tímabil. Stór skref voru stigin bæði með fullmótun Sveinskotsvallar og áframhaldandi framkvæmdum á Hvaleyrarvelli. Sumarsins verður minnst með bros á vör, og fátt annað hægt en að vonast til að fá sambærileg tímabil næstu árin.