Framkvæmdir

Það fór varla framhjá neinum að mikið var unnið í framkvæmdum þetta sumarið. Síðasta vetur fóru fram efnisflutningar út á Hvaleyri en vegna veðurs var erfitt að keyra með efni yfir völlinn framan af. Tókst þó að koma öllu efni á staðinn í tæka tíð en síðustu bílar voru að keyra efni fram í Júní. Eftir lítið frost um veturinn var þvi mikil lukka að ná að koma efninu á staðinn án mikilla skemmda í þurrkum sumarsins.

Framkvæmdir sumarsins eru liður í heildarskipulagi um endurhönnun Hvaleyrinnar sem unnin er af Tom Mackenzie.

Þann 17. Júní hófust svo framkvæmdir formlega, þá var framkvæmdaleyfi komið í hús og gröfumaður kominn til landsins til að móta svæðið. Mótunarvinnan fór fram af Marcus sem á og rekur fyrirtækið “1st Golf Construction”. Marcus er einn þekktasti og reyndasti aðili heims í mótun golfvalla og hefur tekið þátt í mótun og uppbyggingu margra víðfrægra valla og hola.

Marcus hófst strax handa þann 18. júní og unnu starfsmenn vallarins myrkranna á milli næstu vikurnar við að aðstoða og undirbúa fyrir hann. Öll vinna, að mótunarvinnu undanskilinni, fór fram af starfsmönnum Keilis og í þá vinnu fóru samanlagt vel yfir 1000 vinnustundir. Vélvirkinn okkar Chris Elrick kom sterkur inn með sína reynslu af sambærilegum framkvæmdum og var hann á svæðinu allan tímann sem Marcus var við vinnu.

Marcus kláraði sinn hluta verksins þann 4. júlí en á þeim tíma hafði hann mótað flöt og umhverfi flatar á verðandi 13. braut (gömlu 15./16.), teig fyrir verðandi 14. braut, auk þess sem hann mótaði fyrir glompum á báðum brautum og fjarlægði manngert landslag í kring um klósettið á gölmlu 16. Brautinni (par 3). Á sama tíma höfðu starfsmenn vallarins einnig lagt vökvunarkerfi í flötina og teiginn auk drenskurða ofan við og niður með brautinni sjálfri. Starfsmenn voru einnig langt komnir með að slétta brautina sjálfa með jarðvegstætara.

Ekkert lát var á vinnu starfsmanna og næstu tvær vikur var unnið hörðum höndum við að gera flöt og umhverfi, ásamt teig, klárt fyrir sáningu. Þann 17. júlí var svo sáð í þessi svæði, sléttum mánuði eftir að framkvæmdir hófust. Tókst sáningin vel og ekki skemmdi veðrið fyrir. Dúkar voru dregnir yfir svæðið eftir sáningu og spírun á svæðinu nokkuð hröð.

Eftir sáningu þessara svæða var áhersla lögð á brautina sjálfa. Mikið verk var að losna við allar þúfurnar og hólana sem myndast höfðu á brautinni við frostlyftingar. Jarðvegstætarinn fór nokkrar umferðir yfir svæðið og tók hver umferð um heilan vinnudag. Því næst var farið í að hreinsa svæðið af steinum, torfum og öðrum aðskotahlutum. Glompur voru svo fínmótaðar og svæðið slétt og þjappað. Síðasta verk fyrir sáningu var að grafa fyrir, og leggja vökvunarkerfi í brautina en þar fóru niður alls 9 sprinklerar.

Sáð var í brautina og dúkur lagður yfir þann 2. ágúst, tveimur vikum eftir sáningu í flöt og teig. Eftir sáningu var strax hafist handa við að hlaða glompur og tókst að klára 4 glompur fyrir veturinn.

Einnig var sáð umhverfis glompur á verðandi 14. braut en það var gert til að festa jarðveginn fyrir veturinn svo lag þeirra haldist sem best þangað til þær verða kláraðar næsta vor.

Æfingasvæði (Hraunkot)

Í sumar fékk klúbburinn tvo nýja robota á æfingasvæðið. Ekki hafði tekst jafn vel til með robotana síðasta sumar og vonir stóðu til. Stafaði það af galla í vélunum og fékk klúbburinn því ný tæki búin nýrri og betri tækni.

Vel gekk með nýju vélarnar í sumar. Tínsluvélin safnaði um 9000 boltum á sólarhring og sláttuvélin hélt svæðinu snyrtilega slegnu. Augljós munur var á svæðinu með minni ágangi þungra véla í sumar og möguleikar á enn betri árangri næsta sumar.

Markmiðið er að öll tínsla og áfylling á boltavélar verði sjálfbær en hingað til hefur alltaf þurft starfsmann til að kveikja á vélum og blása boltum í æfingaskýlin. Mögulegt er að tínsluvélin kveiki sjálfvirkt á því kerfi og munum við vinna að því í vetur.

Sveinskotsvöllur

Undanfarin sumur hefur mikið verið framkvæmt á Sveinskotsvelli og völlurinn tekið töluverðum breytingum. Stórt skref var tekið í sumar þegar opnað var inn á nýja 9. braut vallarins en með opnun hennar hefur Sveinskotsvöllur tekið á sig endanlega mynd.

Í sumar var slætti breytt á vellinum, brautir stækkaðar umtalsvert og kargi sleginn niður. Tyrft var í nokkur sár í vor, en þær tyrfingar náðu sér aldrei til fulls sökum þurrka.

Framundan eru spennandi tímar á Sveinskotsvelli og nú þegar helstu framkvæmdum er lokið getum við einbeitt okkur enn meira að því að lyfta gæðum vallarins á næsta stig. Undanfarin tvö ár hefur Sveinskotsvöllur fengið sama viðhald og Hvaleyrarvöllur og gæðin án efa að verða meiri. Næstu skref eru að koma sjálfvirku vökvunarkerfi í allar flatir og teiga og farið verður í það verkefni strax og tækifæri gefst.

Útseld vinna

Útseld vinna var sambærileg síðustu árum. Á sviði knattspyrnuvalla sá Keilir um viðhald knattspyrnusvæða ÍTH ásamt söndunum og götunum á svæðum ÍTR. ÍTR svæðin minnka þó með hverju árinu sem líður með aukinni byggingu gervigrasvalla en heildarstærð grassvæða þeirra er í dag um 24 hektarar (áður 34). Á móti kemur að þjónusta okkar við ákveðna velli hefur aukist vegna tónleikahalds og tónlistahátíða, en mikið álag er á grassvæðin í kring um þá starfsemi. Eins og síðustu ár sá Keilir einnig um allar úðanir og sérverkefni fyrir Laugardalsvöll.

Brýningar síðasta vetur voru sambærilegar árinu á undan og ánægjulegt að sjá að við höldum okkar viðskiptavinum þrátt fyrir aukna samkeppni í brýningunum.

Viðhald á púttflötum Hrafnistu voru áfram í okkar höndum og þau heimsótt vikulega yfir tímabilið.

Að auki þessum föstu liðum sá Keilir um gatanir og sandanir fyrir allnokkur knattspyrnufélög utan borgarmarka og jákvætt að sjá mörg þessara félaga kaupa af okkur þjónustu árlega síðustu árin.

Umhirða Setbergsvallar var aftur í höndum Keilis þetta árið en þó með breyttu sniði. Keilir sá einungis um slátt og umhirðu snöggsleginna svæða þ.e flatir, teigar, brautir og svuntur. Setbergsvöllur hafði þá starfsmann í vinnu sem sá um karga, glompur, trjásnyrtingar og önnur verk. Tveir starfsmenn voru að jafnaði við vinnu á Setbergsvelli og var viðhald þar hið sama og hjá okkur á Keili. Almenn ánægja var með gæði Setbergsvallar í sumar en þó komu löng þurrkatímabil sem reyndust vellinum erfið, en völlurinn þar er ekki búinn sjálfvirku vökvunarkerfi.

Kargi

Eftir skiptar skoðanir á óslegnum svæðum sumarið 2018 ákvað vallanefnd ásamt vallastjórum að fá í lið með sér golfvallahönnuð til að skoða þau mál. Edwin Roald, sem unnið hefur með klúbbnum við ýmis verkefni, t.a.m nýju 9. brautina á Sveinskotsvelli, var fenginn í verkefnið. Eftir að hafa tekið brautirnar út frá jörðu og úr lofti skilaði Edwin svo af sér teikningum um slátt á Hvaleyri og Sveinskotsvelli. Edwin hefur sérhæft sig í golftengdri tölfræði og notaðist meðal annars við líkön um högg kylfinga í öllum forgjafaflokkum, og reiknaði þannig út líkur kylfinga á að lenda í umræddum karga. Hugsunin var einnig að slá niður kargann þar sem hinn almenni kylfingur er líklegri til að lenda, en halda betur í hann þar sem þeir bestu eru líklegri til að lenda. Með því var hægt að hafa völlinn meira fyrirgefandi fyrir hinn almenna kylfing en halda honum jafnframt krefjandi fyrir þá bestu. Mikil ánægja var með vinnu Edwins og var sláttulínum hans haldið út sumarið.

Óslegin svæði voru þynnri þetta sumarið en oft áður og stafaði það meðal annars af þurrki. Allur kargi var sleginn niður eftir síðasta tímabil og mun hann sleginn niður aftur þetta árið. Grasinu er svo safnað saman og fjarlægt af svæðunum. Með þessum aðgerðum mun karginn hægt og rólega þynnast út og verða viðráðanlegri fyrir kylfinga.

Merkingar

Haldið var áfram að smíða vegvísa, teigmerki og aðrar merkingar fyrir golfvöllinn. Með þessari vinnu er verið að vinna að heildarútliti allra merkinga. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Fjölbrautaskólann í Garðabæ þar sem einhverfir einstaklingar sjá um smíðina undir stjórn Guðlaugs Georgssonar.

Þessi vinna hefur bætt mjög heildarásýnd golfvallanna og verður gaman að vinna áfram að þessu verkefni með Guðlaugi og hans fólki. Í viðhorfskönnun Keilis hefur verið kvartað yfir því að illa sjáist á skiltin og verð stafir málaðir nú í vetur til að sjá betur á skiltin.

Vélakaup og aðstaða starfsmanna

Stórt skref var tekið í ár þegar keyptur var nýr spreybíll. Spreybíllinn sem útbúinn er GPS tækni er sá nákvæmasti sem völ er á. Auk þess að úða nákvæmlega út eftir GPS hnitum hefur spreybíllinn um 45% stærri tank en sá sem fyrir var. Þýðir þetta að bæði nákvæmni og afköst hafa aukist til muna með tilkomu bílsins og eru starfsmenn hæstánægðir með kaupin.

Önnur vélakaup ársins snéru að miklu leiti að nýframkvæmdum.

Keypt voru tvö tæki af GKB, hollensku fyrirtæki sem starfsmenn voru kynntir fyrir á sýningu í San Digo í janúar. Þessi tæki voru jarðvegstætari og pinnasáningavél. Jarðvegstætarinn var notaður til þess að tæta upp og slétta nýju brautina sem unnið var að í sumar og voru starfsmenn ánægðir með afsköst tætarans.

Pinnasáningavélin mun svo koma sér vel við yfirsáningar á svæðinu, en sú vél mun einnig nýtast vel við sáningar á stærri svæðum og getur unnið við fleiri veðurskilyrði en skurðarsáningarvélin sem notuð hefur verið síðustu ár. Einnig fjárfesti klúbburinn í nýrri þökuskurðarvél þar sem sú sem fyrir var hafði gefið upp öndina.

Framundan eru spennandi tímar á sviði sláttuvéla og annara tækja sem notuð eru við umhirðu golfvalla. Mikil þróun hefur átt sér stað í sjálfvirkum tækjum og slátturvélum (robot) síðustu ár og með lækkandi verði og meiri afkastagetu fara þessi tæki að verða vænn kostur til að leysa af mannaðar vélar.

Tilraun var gerð í samstarfi við MHG í sumar með sjálfvirka sláttuvél umhverfis púttflöt við skálann. Eins og glöggir tóku eftir hefur umrætt grassvæði aldrei litið betur út, en aldrei var farið á það svæði á mönnuðum vélum. Sama má segja um æfingasvæðið okkar en það svæði var einnig einungis slegið á sjálfvirkri sláttuvél í sumar.

Mikilvægt er að klúbburinn hafi sjálfvirknivæðingu sláttuvéla í huga við vélakaup næstu árin og kynni sér allar nýjungar í þeim efnum.

Þrátt fyrir að hafa bætt við okkur góðum og nytsamlegum jaðartækjum undanfarin ár, hefur lítið sem ekkert verið endurnýjað af sláttuvélum. Sláttuvélar eru mjög dýrar og ljóst er að langan tíma tekur að endurnýja flotann í heild sinni.

Vitað hefur verið um nokkurt skeið að framleiðendur eru að vinna að þróun þessara véla en ekkert marktækt komið út enn. Helst er þá verið að horfa í rafmagns- og sjálfvirknivæðingu. Stefna klúbbsins hefur því verið að notast við gömlu vélarnar og geta þá stigið skref fram á við, samhliða nýjustu tækni. Þó er svo komið að margar vélanna eru orðnar það gamlar og slitnar að endurnýjun er nánast óumflýjanleg. Með endurnýjun þeirra véla er nauðsynilegt að velja vélar sem hámarka afkastagetu og gætu jafnvel nýst á fleiri en eitt svæði.

Lengi hefur verið ljóst að vélaskemman okkar ræður ekki við þann fjölda véla og tækja sem klúbburinn á og notar. Síðustu vetur höfum við því miður þurft að geyma tæki og tól undandyra yfir vetrartímann sem er síður en gott, enda mörg þessara tækja mjög dýr. Plássleysið þýðir einnig að vinnuumhverfi vélvirkja og annarra starfsmanna er mjög ábótavant og færa þarf tæki og vélar út daglega svo pláss myndist til vinnu.

Augljóst er að þetta er vandamál sem ekki verður leyst í flýti, en þó var brugðið til þess ráðs að leigja geymsluhúsnæði fyrir veturinn svo hægt væri að koma öllum verðmætum í skjól. Húsnæðið er um 160 fermetrar að stærð og með fullnýtingu þess tókst okkur að koma öllum tækjum inn. Þetta leysir þó aðeins hluta vandans því þó svo öll tæki séu komin inn, er vélaskemman ennþá mettuð af tækjum.

Starfsmannaaðstaða vallastarfsmanna, sem er hluti af vélaskemmunni, er einnig löngu úr sér gengin. Leiðinlegt er að sjá í ljósi þeirrar framsýni og gæða sem klúbburinn hefur sýnt á öðrum sviðum, hvernig litið hefur verið framhjá aðstöðu tækja og vallastarfsmanna síðustu ár, og þarf nauðsynlega að skoða þessi mál af alvöru.