Ávarp formanns
Þetta golfsumar kom liklega flestum í opnu skjöldu, eftir rigningu og rok síðasta sumars var ekki mikil von á góðu sumri enda búið að spá sjö ára hremmingum.
En völlurinn kom frábærlega undan vetri og hefur ekki verið í eins góðu ástandi í byrjun maí í manna minnum. Góða veðrið lét ekki á sér standa og einkenndist sumarið og haustið af nánast samfelldu logni og blíðu og voru Keilismenn duglegir við að spila eins og sést í samantektinni um leikna hringi hér í skýrslunni.
Framkvæmdir samkvæmt áætlun
Framkvæmdir héldu áfram samkvæmt áætlun, mesti þunginn var settur á að klára þær framkvæmdir sem unnið hefur verið að á Sveinskotsvelli, opnað var inn á nýja flöt í byrjun júli og er gaman að sjá í viðhorfskönnun Keilis sem kynnt verður hér á fundinum að þeir félagar sem svöruðu spurningum um ástand Sveinskotsvallar að ánægjuvogin er farin að rísa aftur. Það er mikill metnaður í vallarstjórunum okkar að bæta völlinn enn meira á komandi tímum.
Farið var í að byggja upp 16. brautina með tilheyrandi raski en framkvæmdin gekk frábærlega og getum við hlakkað til að spila nýja braut vonandi á meistaramóti næsta sumars. Framkvæmdir halda síðan áfram á næstu ári samkvæmt áætlun með góðum stuðningi Hafnarfjarðarbæjar en þá verður farið í að endurbyggja framtíðar 18. flötina (núverandi 12 flötina) ásamt ýmsum minni framkvæmdum. Allar breytingarnar sem hefur verið unnið að síðustu ár á Hvaleyrarhluta vallarins hafa fengið mjög góð viðbrögð hjá félagsmönnum og gestum okkar og vinnur Hvaleyrin hratt á í skoðanakönnunum. Það er mjög skemmtileg þróun og styrkir okkur í þeirri trú að við séum á réttri leið með þær breytingar sem liggja fyrir.
Seinleikin tíunda hola
Það hefur komið mjög sterkt fram í síðustu Viðhorfskönnunn að félagsmenn gera ákall um það að vellinum sé oftar snúið og hefjum leik á 10. teig. Það er því miður reynsla okkar að 10. brautin sé of seinleikin sem byrjunarhola til þess að það sé raunhæft þar sem að það getur tekið frá 12 og uppí 18 mínútur að leika holuna. Er það megin ástæða þess að við höfum ekki brugðið á það ráð að hefja leik á 10. teig. Þegar breytingum líkur á Hvaleyrarhluta vallarins þá mun þessi möguleiki aftur á móti vera fyrir hendi og verður klárlega skoðaður í framhaldinu.
Eftir síðasta sumar og allar þær hremmingar sem fylgdu mikilli úrkomu þá lögðu vallarstjórar mikla áherslu á að bæta dren í Hrauninu. Var það gert með tveimur stórum aðgerðum, annarsvegar þá var Hraunið borað allt sundur og saman síðastliðinn vetur en alls voru 90 holur teknar sem eru frá 3-6 metrum á dýpt. Einnig verða brautir í hrauninu skornar og sandaðar í mun meira magni á næstu árum. Miklar vonir eru bundnar við það að gæði brautinna verði umtalsvert betri með þessum aðgerðum.
Hvaleyrarvöllur áfram í fararbroddi
Orðspor golfvallarins heldur áfram að aukast á meðal erlenda gesta og greinarhöfunda sem koma í heimsókn til okkar. Á árinu kom í heimsókn ritstjóri frá „The Links Magazine“ sem er eitt útbreiddasta golftímarit Bandaríkjanna. Átti hann varla til orð yfir hrifningu sinni á vellinum og tók fram í grein sinni að ef hann kæmi einhverntímann aftur til Íslands þá yrði Hvaleyrarvöllur hans fyrsta val. Þá var Hvaleyrarvöllur einnig valinn besti golfvöllur á Íslandi af „The Golf World Awards“.
Frábær stemmning var á Meistaramóti sumarsins en sú nýbreytni var prófuð að ræsa út á 8 mínútna fresti þetta árið. Það er skemmst frá því að segja að það er líklega fullreynt. Mikil töf myndaðist strax á fyrstu holunum með tilheyrandi bið. Ástæða þess að þetta var reynt er tvíþætt; annarsvegar til að koma fyrir öllum þeim fjölda sem tekur þátt í mótinu og hinsvegar að vera búin á skikkanlegum tíma á lokadegi móts. En að öðru leyti var allt til fyrirmyndar og gríðarleg stemmning á lokakvöldi þar sem dansað var fram eftir nóttu.
Góður árangur afrekskylfinga
Afrekskylfingum Keilis gekk vel og komu tveir stórir titlar í hús þetta árið. Rúnar Arnórsson sigraði íslandsmótið i holukeppni á Akranesi en Guðrún Brá varði Íslandsmeistaratitilinn í höggleik á Grafarholti.
Barna og unglingastarf er í miklum blóma með stöðugri fjölgun og var metfjöldi á námskeiðum okkar í sumar. Það er gaman að sjá að áhersla okkar á aukið barna og unglingastarf er að skila sér inní starfið. Annars þá vísa ég í góða samantekt Íþróttastjóra klúbbsins hér á síðunni.
Öflug æfingaaðstaða orðin enn betri
Golfhermar voru endurnýjaðir í haust og er almenn ánægja með virkni þeirra. Hermarnir hafa verið vel nýttir það sem af er hausti og ánægjulegt að sjá hversu margir hópar bóka sér reglulega tíma allan veturinn. Ég vil eindregið hvetja Keilisfólk til að koma og prófa þar sem nýju hermarnir eru mun næmari og því hverfandi líkur á að þeir nemi ekki höggið. Einnig er nú hægt að pútta og líkja þannig enn frekar eftir raunverulegum leik. Rúsínan í pylsuendanum verður klárlega sú að stefnt er á að fá framtíðarvöll Keilis í hermana. Unnið er að því hörðum höndum að klára frágang svo að þetta verði að raunveruleika sem allra fyrst.
Æfingasvæði Keilis hefur aldrei verið eins mikið notað og nú og í nógu að snúast hjá golfkennurum. Inniaðstaðan má muna fífil sinn fegurri en dregur nú loks til tíðinda þar sem stefnt er á að skipta um teppi eftir áramót og er víst löngu komin tími á það.
Aukið vallareftirlit
Ef rýnt er í skoðanakönnun ársins virðist ríkja almenn ánægja með það starf sem fer fram í Keili, en það sem stendur helst upp úr er óánægja með leikhraða. Starfsmenn voru duglegir við að tímamæla hringina á álagstímum og kom sú mæling yfirleitt vel út þar sem meðaltími í Hrauninu var sléttir tveir tímar. Sú staðreynd að flestir nýta sér það að hafa stöngina sem mest í þegar verið er að pútta flýtir mikið fyrir auk þess sem mikill skurkur var gerður í baráttunni við röffið sem flýtir einnig leik.
En betur má ef duga skal og er stefnt að því að auka vallareftirlit verulega á komandi ári. Að því sögðu vil ég minna kylfinga á að okkur ber öllum að gæta fyllstu kurteisi gagnvart þessum starfsmönnum okkar sem oft mæta því miður ótrúlegum dónaskap þegar bent er á að holl sé að dragast aftur úr.
Eflum félagsstarfið
Það er stefna okkar að auka mjög starf fyrir 67 ára og eldri og var talsvert unnið í því á síðasta ári. Vil ég nota tækifæri og þakka sérstaklega Hjörvari O Jenssyni fyrir að leiða starfið og skipuleggja. Með honum störfuðu Ágúst Húbertsson, Hallgrímur Hallgrímsson, Björk Ingvarsdóttir, Lucinda Grímsdóttir og Guðmundur Friðrik Sigurðsson
Stefnir þessi hópur á það að auka möguleika félagsmanna í þessum aldurshópi að hittast bæði yfir sumar og vetrartímann. Ég hvet alla félagsmenn sem hafa áhuga á þessu starfi að hafa samband við þetta góða fólk og koma að athugasemdum eða ábendingum um starfið.
Kvennastarfið var einnig leitt af miklum myndarskap, Agla Hreiðarsdóttir lét af störfum formanns nefndarinnar nú í haust og þökkum við henni kærlega fyrir vel unnin störf. Í hennar stað kemur Matthildur Helgadóttir þannig að það er engin lognmolla framundan í því starfi og stefna Keiliskonur á utanlandsferð næsta vor.
Stórar breytingar á tölvu- og forgjafarkerfum
Á næsta ári verður talsvert um stórar nýjungar. Nýtt tölvukerfi Golfbox verður tekið í notkun Golfbox leysir af hólmi gamla kerfið okkar golf.is sem þjónað hefur kylfingum í fjölda ára. Möguleikarnir í þessu kerfi eru mun meiri en gamla golf.is bauð uppá. Þessa dagana er starfsfólk okkar á námskeiðum að læra á nýja kerfi og munu í framhaldinu uppfræða félagsmenn um kerfið.
Einnig eru stórar nýjungar í kringum forgjafarkerfið, nýtt alheimsforgjafarkerfi verður tekið upp um næstu áramót. Ekki eru farnar að berast miklar upplýsingar um kerfið enn verður eflaust gerð bragabót á því eftir áramót.
Það er ekki hægt að segja annað en framtíðin sé björt og spennandi tímar framundan. En nú sem áður er um að gera að halda vel á spöðunum og halda áfram að byggja upp og efla þennan frábæra klúbb sem við erum aðilar að.
Takk fyrir árið.
Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir
Formaður